München heimsókn
13.4.2011 | 20:23
Svo virðist sem músunum þykji félagsskapur minn góður því þær eru ekkert á farandsfæti. Þær sýna þó orðið mikla tillitssemi og það fer voða lítið fyrir þeim, við verðum ekkert var við þær nema ég heyri af og til í þeim og síðan skilja þær þarfir sínar vítt og breitt um íbúðina en þetta stefnir allt í það að við munum lifa hér saman áfram í sátt og samlyndi.
Ég fór til München á föstudagsmorguninn alveg alein og þó að mörgun þætti þetta lítið mál þá tók þetta á hverja einustu taug hjá mér. Líkt og móðir mín á ég mjög auðvelt með að stressa mig upp yfir litlum hlutum og í lestinni á leiðinni út á flugvöll þurfti ég af og til að minna sjálfan mig á að anda. Ég virðist þó hafa fundið mína leið við að ferðast einsömul á nýja staði en ég hengi mig bara á eitthvað ókunnugt fólk og kemst þannig á leiðarenda. Á leiðinni út fann ég þetta huggulega par á miðjum aldri sem var akkurat á leiðinni líka til München og síðan með lestinni að Haufbanhof. Ég sat með þeim í lestinni og maðurinn útskýrði fyrir mér hvernig lestinn virkaði hérna, ég var alveg orðin pollróleg þegar ég loks komst á leiðarenda.
Hugrún, Helga og Jenny vinkona Helgu tóku á móti mér á lestarstöðinni. Hugrún þurfti því miður að fara strax að vinna en Helga og Jenny fóru með mig í einn af mörgum almenningsgörðum München. Við sátum og töluðum alveg heil helling enda þurfti ég mikið að fá að tjá mig við manneskjur á mínu þroskastigi. Ég hef mikla tjáningaþörf og hef einstaklega gaman af því að tala svo þetta gerði geðheilsu minni afskaplega gott. Að vísu þurftum við að tala saman á ensku vegna þess að Jenny er frá Sviss og ekki tala ég mikið í þýsku en ég lét það nú ekki stoppa mig. Um kvöldið fórum við allar saman á Park Café og skelltum í okkur nokkrum kokteilum en þar slóst í för með okkur skólasystir Jenny og Helgu, hún Grete en hún er Ítölsk. Ég hélt að ég yrði ekki eldri þegar ég komst að því að hún Grete vissi ekki hvað FRIENDS var og ekki heldur hver Jennifer Aniston er en í kjölfarið dróg ég þá ályktun að hún hlyti að hafa búið í helli þarna í Ítalíu.
Á laugardeginum röltum við nú bara um og fundum smá grasblett hjá ánni Isar og lögðumst í sólböð. Stelpurnar gerðu einhverja tilraun til að sýna og segja mér frá einhverjum merkum mannvirkjum svo þær löbbuðu með mig götu sem heitir Maximilianstraße. Þar eru allir stærstu tískurisarnir og vildi svo skemmtilega til að drauma kjóllinn minn var til sýnis í Gucci búðarglugganum. Hann hefði auðveldlega getað orðið minn hefði ég verið til í að selja úr mér annað nýrað en þar sem ég er rauðhærð eru nýrun á mér lítt eftirsótt.
Þegar við vorum um það bil að grillast úr hita röltum við og fengum okkur ís og sáum Glockenspiel. Þetta Glockenspiel er víst algjört must fyrir túrista að sjá en vakti ekkert alltof mikla lukku hjá mér, en ég var eiginlega of upptekinn við að reyna að losa mig úr rosa stórri tyggjóklessu sem ég hafði náð að festa mig í á meðan þessu stóð.
Upp úr hádegi á sunnudeginum fékk ég að upplifa bayerísku menninguna beint í æð á Hofbräuhaus en þar drukkum við eins líters bjór (í mínu tilfelli bjór og síter, ekki sú grimmasta í bjórnum) og fengum pretzel. Ég þurfti að hafa mig alla við til að ná að lyfta upp glasinu og er ég nú kominn með grimma upphandleggsvöðva eftir heimsóknina.
Frá Hofbräuhaus lá leið okkar í Englscher Garten þar sem við láum eins og skötur í sólinni. Þjóðverjar að mínu mati er afar frjálslegir með nekt en það er partur í garðinum þar sem leyfilegt er að vera nakinn. Hitinn var nú ekkert rosalegur svo það voru ekki margir naktir en við rákumst á tvo eldri karlmenn sem voru á vappi í fæðingargallanum einum saman. Um kvöldið flaug ég svo aftur heim til London eftir afar vel heppnaða og afslappaða ferð. Ferðin gekk mjög vel þar sem ég hengdi mig á hóp á mönnum sem höfðu verið að steggja vin sinn.
Núna þarf ég bara finna leið til að þrauka næstu þrjár vikurnar þar sem Þórdís stakk af til Canada með au-pair fjölskyldunni sinni. Ætli ég verði ekki bara að búa mér til ímýndaðan vin eins og hann Einar Áskell gerði.
XOXO
LOVE TYRA
Athugasemdir
Haha þú ert svo æðislegur penni Kristín! Þú verður að skrifa bók einn daginn, þori að leggja annað nýrað á mér að veði um að þú munir skrifa miklu skemmtilegri bækur en Tobba Marínós :)
Erna Dís (IP-tala skráð) 13.4.2011 kl. 22:58
Ég elska þig Krummi!! Voruð þið eitthvað að bæta við bloggum þarna á bellos síðunni? haha :)
Tinna (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 02:33
Ég hló svona 6 sinnum upphátt! Sérstaklega þetta með rauðhærðu nýrun! Þú ert einn mesti snilldar penni sem ég þekki herra Þúsundþjalasmiður! Þakka þér innilega fyrir komuna og samveruna og ég bið að heilsa músunum :D
Hugrún (IP-tala skráð) 14.4.2011 kl. 13:52
Hahaha en fyndið... Fæðingargallinn!! nokkuð gott :O)
Fríða (IP-tala skráð) 15.4.2011 kl. 19:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.